Hlekkur á rafræna útgáfu og spilari fyrir hljóðbók eru neðst á þessari síðu.
Haustið 2016 samþykkti stjórn félagsins að skipa ritnefnd með það að markmiði að varðveita og rita sögu félagsins. Í ritnefnd voru Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Páll H. Jónsson, Kristín Þorgilsdóttir og Erla Halls. Við tók mikil vinna við heimildaöflun sem teygði anga sína víða. Ritun bókarinnar var í höndum Jóns Þ. Þór og viðauki er eftir Braga Bergmann, sem einnig sá um ritstjórn. Félagið kann þeim öllum þakkir fyrir ómetanlegt framlag þeirra í þágu útgáfunnar.
Titill bókarinnar Sækjum við að settu marki er lína úr ljóði eftir Heiðrek Guðmundsson frá Sandi, en hann var félagsmaður FVSA og formaður félagsins 1946-1947. Um bókina segir:
Hér er rakin saga Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni allt frá stofnárinu 1930 til dagsins í dag. Sögð er saga stórfelldra þjóðfélagsbreytinga og lífskjarabyltingar. Með órjúfandi samtakamætti náðu félagsmenn smám saman að tryggja sér öll þau réttindi sem okkur þykja svo sjálfsögð í dag.
Í bókinni er lýst þeim gífurlegu áhrifum sem tækniþróunin hefur haft á störf verslunar- og skrifstofufólks og þeim miklu breytingum sem orðið hafa í verslun og viðskiptum á félagssvæðinu.
Guðjón Heimir Sigurðsson sá um umbrot og myndvinnslu. Bókin er ríkulega myndskreytt yfir 500 myndum m.a. af formönnum og stjórnum félagsins frá upphafi, auk mynda frá félagsstarfi og þróun samfélagsins í gegnum 90 ára sögu félagsins. Bókin er öllum aðgengileg rafrænt í gegnum hlekkinn hér að neðan og sem hljóðbók í spilara. Auk þess geta áskrifendur að Storytel hlustað á bókina þar. Um lestur sá Guðni Kolbeinsson, hljóðupptaka fór fram í Stúdíó Harmur.