Matar- og kaffitímar

 Matartími í dagvinnu

Matartími á dagvinnutímabilinu skal vera ½ - 1 klst. á tímabilinu kl. 12:00 - 14:00 og telst hann eigi til venjulegs vinnutíma. Réttur til hádegisverðarhlés miðast við a.m.k. 5 klst. vinnu á dagvinnutímabilinu.

Kaffitími í dagvinnu

Hjá afgreiðslufólki skal kaffitími vera 35 mín. á dag miðað við dagvinnu. Hjá skrifstofufólki skal kaffitími vera 15 mín. á dag miðað við dagvinnutíma. Fólk sem vinnur hluta úr degi skal fá hlutfallslegan kaffitíma. Fella má niður eða stytta kaffitíma með samkomulagi á vinnustað og styttist vinnutími sem því nemur.

Matar- og kaffitímar utan dagvinnutímabils

Kvöldmatartími
Veita skal kvöldmatartíma á tímabilinu kl. 19:00–20:00 og greiðist hann með eftir-/yfirvinnukaupi eftir því sem við á. Sé matartíminn unninn eða hluti af honum greiðist tilsvarandi lengri yfirvinna.

Dæmi 1: Unnið er til kl. 19:10. Greiddar eru 10 mínútur á eftir-/yfirvinnukaupi eftir atvikum vegna vinnutíma til kl. 19:10. Einnig er greiddar aukalega 10 mínútur í yfirvinnu vegna unnins matartíma.

Dæmi 2: Unnið er til kl. 21:00. Starfsmaður fær 40 mínútur í matartíma. Vinnutíminn milli kl. 19:00–20:00 greiðist á eftirvinnukaupi til hlutastarfsmanna en yfirvinnukaupi til starfsmanna í fullu starfi. Einnig eru greiddar 20 mínútur á yfirvinnukaupi vegna unnins matartíma.

Vinna hefst kl. 16:00 og síðar
Starfsmenn í verslunum sem mæta til vinnu kl. 16:00 eða síðar, skulu fá greiddar 5 mínútur fyrir hverja unna klst., þó að lágmarki 15 mínútur vegna neysluhléa sem ekki eru tekin. Vinni starfsmaður 4½ klst. eða lengur, á hann hins vegar rétt á óskertu 1 klst. matarhléi.

Aðrir matar- og kaffitímar
Sé unnið utan dagvinnutímabils skal matartími vera frá kl. 3:00–4:00 og kaffitímar frá kl. 22:00–22:20 og kl. 6:15–6:30. Á Þorláksmessu er þó heimilt að veita 20 mínútna kaffitíma á tímabilinu frá kl. 21:40-22:20. Ofangreindir matar- og kaffitímar teljast til vinnutíma og sé unnið í þeim greiðist tilsvarandi lengri yfirvinna.

Matar- og kaffitímar á laugardögum, sunnudögum og frídögum
Með matar- og kaffitíma á laugardögum, sunnudögum og á frídögum, sbr. gr. 2.3., skal fara eftir sömu reglu og um virka daga.

Um vinnu í matar- og kaffitímum
Sé unnið í matar- eða kaffitímum á dagvinnutímabili eða hluta af þeim skal greiða þá með eftir-/yfirvinnukaupi eftir því sem við á.

Matar- og kaffitímar skv. samningi LÍV/FVSA og FA

Starfsmenn eiga rétt á vinnuhléi sem nemur að minnsta kosti 0,5 klst. alls á dag, nema að um annað sé samið. Daglegur tími sem fer í vinnuhlé má ekki fara fram úr 1 klst. nema vinnudagur fari fram yfir 8 klst. á dag, þá má vinnuhlé fara í 1,5 klst. á dag.

Á þeim dögum sem vinnutíma lýkur fyrir kl. 14:00 er heimilt að semja um að ekki skuli tekið vinnuhlé.

Kvöldmatartími Veita skal kvöldmatartíma á tímabilinu kl. 19:00–20:00 og greiðist hann með eftir-/yfirvinnukaupi eftir því sem við á. Sé matartíminn unninn eða hluti af honum greiðist tilsvarandi lengri yfirvinna.