Desemberuppbót

Desemberuppbót fyrir hvert almannaksár miðað við fullt starf er :

2027 = 118.000 kr.
2026 = 114.000 kr.
2025 = 110.000 kr.
2024 = 106.000 kr.
2023 = 103.000 kr.
2022 = 98.000 kr.

Desemberuppbót innifelur orlof, er föst tala og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum. Áunna desemberuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. 

Hverjir eiga rétt á desemberuppbót?

Desemberuppbót greiðist eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember. Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að uppgjörstímabil sé frá 1.desember til 30.nóvember ár hvert í stað almanaksárs.

Samkvæmt samningi við SA

Starfshlutfall miðast við fasta reglubundna vinnu, þó að hámarki 39,5 stundir hjá afgreiðslufólki og 37,5 stundir hjá skrifstofufólki á viku. Starfsfólk í hlutastarfi skal fá greitt hlutfallslega.

Uppgjörstímabil er almanaksárið. Fullt ársstarf er 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Starfsfólk með skemmri starfstíma skal fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma sinn.

Samkvæmt samningi við FA

Starfshlutfall miðast við fasta og reglubundna vinnu, þó að hámarki 36 stundir og 15 mínútur á viku. Starfsfólk í hlutastarfi skal fá greitt hlutfallslega.

Uppgjörstímabil er almanaksárið. Fullt ársstarf er 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Starfsfólk með skemmri starfstíma skal fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma sinn.

Ávinnsla desemberuppbótar í fæðingarorlofi

Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desemberuppbótar. Sama gildir ef kona þarf af öryggis­ástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Frí gegn desemberuppbót

Heimilt er með samkomulagi milli starfsmanns og vinnuveit­anda að fella niður eða lækka desemberuppbót og veita samsvarandi frí í staðinn, sem tekur mið af launum hvers og eins. Frí þetta skal veita í heilum eða hálfum dögum. 

Reiknivél v/desemberuppbótar (tekið af vef VR)