Veikindaréttur

Veikindaréttur

Ef starfsmaður veikist og getur ekki sótt vinnu skal hann tilkynna það yfirboðara sínum. Atvinnurekandi ákveður hvort læknisvottorðs skal krafist og greiðir hann þá fyrir það.

Félagsfólk FVSA ávinnur sér veikindarétt sem hér segir:  

  • Á fyrsta ári, tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð.  

  • Eftir 1 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda, tveir mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.  

  • Eftir 5 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda, fjórir mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.

  • Eftir 10 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda, sex mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.

Þó skal starfsmaður sem áunnið hefur sér réttindi til 4 eða 6 mánaða launagreiðslna í veikindaforföllum hjá síðasta atvinnurekanda og skiptir um vinnustað eiga rétt til launagreiðslna um eigi skemmri tíma en í 2 mánuði á hverjum 12 mánuðum.

Sorgarleyfi

Lög nr. 77/2022 um sorgarleyfi voru samþykkt í júní 2022. Sjá lögin hér.

Sorgarleyfi er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við missi barns yngra en 18 ára.

Vinnumálastofnun sér um greiðslur til foreldra sem uppfylla ákvæði laganna um greiðslu. Sjá nánar á vef VMST hér.

Sorgarleyfi reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum. Ráðningarsamband helst óbreytt í sorgarleyfi og á starfsfólk rétt á að hverfa aftur til starfs síns að því loknu. Ef ekki er hægt að verða því því þá skal starfið vera sambærilegt í samræmi við ráðningarsamning.

Óheimilt er að segja foreldri sem nýtur rétt sinn til sorgarleyfis upp störfum á grundvelli þess að tilkynning um slíkt hefur borist atvinnurekanda.