Paradís ljúfra orlofsminninga fær andlitslyftingu

Nýtt eldhús á Illugastöðum 12, í þessu rými var áður svefnsófi.
Nýtt eldhús á Illugastöðum 12, í þessu rými var áður svefnsófi.

Paradís ljúfra orlofsminninga fær andlitslyftingu

Mörg eiga góðar minningar um sumardvöl í Fnjóskadal, ýmist frá tjaldsvæði í Vaglaskógi eða einhverjum af þeim fjölmörgu sumarhúsum sem prýða skógi vaxnar hlíðar dalsins beggja vegna. Innarlega stendur hin margrómaða orlofsbyggð Illugastaða sem samanstendur af orlofshúsum í eigu stéttarfélaga, sundlaug og þjónustumiðstöð.

Fyrstu orlofshúsin voru tekin í notkun á Illugastöðum árið 1968. Byggðin var reist með það að markmiði að veita launafólki kost á að njóta orlofsins að heiman og dvelja í nýju umhverfi, hvílast og njóta náttúrufegurðar án of mikils tilkostnaðar.

Hús félagsins

Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni festi kaup á tveimur 48m2 húsum í byggðinni á árunum 1973-1977. Húsin eru númer 2 og 12 og voru þau endurbyggð um aldamótin. Þriðja húsið í eigu félagsins, númer 19, var svo reist á grunni gömlu verslunarinnar á Illugastöðum árið 2003 og er á tveimur hæðum.

Á síðasta ári var tekin ákvörðun um að gera breytingar á húsum 2 og 12 að innan, bæta alla aðstöðu og gefa þeim andlitslyftingu. Skipulag húsanna var áður með þeim hætti að gengið var inn í andyri með baðherbergi á vinstri hönd, á hægri hönd kojuherbergi og því næst hjónaherbergi. Við tók alrýmið þar sem áður var fremst eldhús með eldhúsborði, þá sjónvarpsaðstaða, útgengi á pallinn og loks krókur með svefnsófa. Húsin eru panelklædd að innan með hita í gólfum.

Bjartari rými og nútímalegri aðbúnaður

Það er smíðafyrirtækið Kvistmenn sem á veg og vanda að framkvæmdinni en Ágúst Hafsteinsson, arkitekt hjá Form, teiknaði breytingarnar á húsunum ásamt innréttingum. Breytingunum er ætlað að betrumbæta flæði í alrýminu auk þess sem bæði eldhús og baðherbergi stækka. Á móti fækkar gistiplássum úr átta í sex, þar sem búið er að færa eldhúsið í krókinn þar sem svefnsófinn var áður.

Með því að færa eldhúsið njóta gluggar hússins sín betur og varpa inn kærkominni birtu í rými þar sem gestir sinna matseld og sitja til borðs. Í nýju eldhúsinnréttingunni er auk þess margfallt meira bekk- og skápapláss auk uppþvottavélar. Sjónvarpsaðstaðan var færð nær svefnherbergjunum og eldhúsborðið nær svalarhurðinni. Með breytingunni flæðir útiaðstaðan á pallinum betur við eldhúsið þar sem styttra er að færa veitingar á milli, hvort sem grillað er að vetri eða snætt úti að sumri.

Meðal áskorana var að færa vegg innar í alrýmið til þess að stækka baðherbergið og nýta þann panel sem var tekinn niður til þess að klæða vegginn þar sem eldhúsið stóð áður. Hjónarúmin voru auk þess breikkuð úr 140cm í 160cm. Betri Fagmenn voru fengnir til að heilmála bústaðina að innan í hlýjum ljósum lit sem léttir á öllu.

Vel hefur tekist til með breytingunum, sem gerir dvöl gesta vonandi ánægjulegri og næsta víst að áfram verða góðar minningar skapaðar í þessari orlofsparadís.

Meðfylgjandi er albúm með myndum af húsunum fyrir breytingu, á meðan verkinu stóð og svo fulluppgerðum húsum.

Þessi umfjöllun birtist fyrst í félagsblaði FVSA sem kom út í byrjun mars.