Kvennaráðstefna ASÍ var haldin á Akureyri dagana 14.-15. nóvember og voru 112 konur úr verkalýðshreyfingunni skráðar til leiks. Veður setti strik í reikninginn sem varð til þess að um helmingur ráðstefnugesta átti ekki heimangengt og sátu því 60 konur ráðstefnuna, þar af átti FVSA ellefu fulltrúa. Ráðstefnustýra var Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar.
Hnika þurfti dagskrá vegna forfalla, en hún samanstóð af málstofum á vegum stéttarfélagana. Gestir skiptust að lokum í tvo hópa og fylgdu eftir erindum m.a. um vinnuumhverfi og stöðu kvenna í iðnaðarsamfélaginu, þriðju vaktina og daglegt líf íslensks fjölskyldufólks, konur og fjölmenningu og kynjabókhaldið. Í framhaldi af hverri málstofu fóru fram líflegar umræður þar sem konur skiptust á skoðunum og reynslusögum um málefnin.
Niðurstöður málstofana voru teknar saman í orðsendingu til miðstjórnar Alþýðusambands Íslands. Auk þess voru áherslur kvenna innan hreyfingarinnar mótaðar fyrir Kvennaárið 2025, en árið verður tileinkað konum í tilefni þess að hálf öld verður þá liðin frá Kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Alþýðusamband Íslands stendur að Kvennaári 2025 ásamt 35 öðrum félagasamtökum.
Þrátt fyrir að veðrið hafi sett mark sitt á dagskrána tókst vel til og einkenndist ráðstefnan af samstöðu og baráttuhug kvennana, sem er frábært veganesti inn í kvennaárið.