Niðurstöður úr Gallup könnun 2024

Það er fagnaðarefni að sjá hve mikil ánægja mælist með þjónustu FVSA meðal félagsfólks.
Það er fagnaðarefni að sjá hve mikil ánægja mælist með þjónustu FVSA meðal félagsfólks.

Könnun meðal félagsfólks FVSA

Dagana 18. nóvember til 17. desember framkvæmdi Gallup skoðanakönnun fyrir hönd Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) meðal félagsfólks. Úrtak úr félagaskrá FVSA var 1.545 manns, fjöldi svarenda var 677 manns og þátttökuhlutfall því 43,8%. Félagsmenn fengu lukkunúmer sent með könnuninn og voru sex heppnir vinningshafar dregnir út meðal þeirra sem tóku þátt.

Sambærilegar kannanir voru framkvæmdar árin 2018 og 2022 og því eru til samanburðargögn fyrir hluta af niðurstöðunum. Helstu niðurstöður úr könnuninni eru dregnar saman hér að neðan, en hægt er að lesa þær í heild hér

Ánægja með þjónustu

Þjónusta 

Það mælist marktækt hærri ánægja meðal félagsfólks með þjónustu FVSA milli kannana. Alls sögðust 87,6% félagsfólks frekar eða mjög ánægt með þjónustu félagsins samanborið við 83,4% í síðustu könnun frá 2022. Sömuleiðis fyndist 87,2% félagsfólks frekar eða mjög auðvelt að leita upplýsinga eða stuðnings frá félaginu ef á þyrfti að halda. 

Það er félaginu mikilvægt að veita góða þjónustu og vera í góðum tengslum við sitt félagsfólk. Það er fagnaðarefni að sjá hve mikil ánægja mælist meðal félagsfólks í könnuninni. Af þeim þjónustukönnunum sem Gallup hefur gert meðal stéttarfélaga frá árinu 2019 skorar FVSA hæst með gildið 4,4 (var 4,3 í síðustu könnun), en meðaltal allra stéttarfélaga er 3,9.

Þátttakendur voru spurðir hvort þau væru hlynt eða andvíg því að leyfa gæludýr í Skógarseli, orlofshúsi félagsins í Vaglaskógi. Um helmingur svarenda, eða 48,2%, segjast hlynnt hugmyndinni, 25,2% sögðust andvíg og 26,6% hvorki né. Mest jákvæðni mælist meðal félagsfólks á aldrinum 25-34 ára, en 67% aldurshópsins eru hlynnt því að leyfa gæludýr.

Starf og launakjör

Af þeim sem svöruðu könnuninni voru 441 eða 66,5% í fullu starfi og 179 eða 27% í hlutastarfi. Af öllum starfandi voru 36,6% í afgreiðslustarfi eða öðru þjónustustarfi, 32,6% í skrifstofustarfi, 18% í stjórnendastarfi og 12,8% í sérfræðistarfi sem krefst háskólamenntunar. Meðaltal heildarlauna svarenda í fullu starfi var 815.000 kr. fyrir skatt.

 

Húsnæði og fjárhagur

Spurt var um áhyggjur af fjárhagslegri stöðu og reyndust 25,1% svarenda hafa miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni, 47,5% hafa litlar eða engar áhyggjur og 27,4% svöruðu hvorki né.

9,4% þeirra sem hafa greitt afborganir af lánum hafa átt í erfðileikum með að standa skil á afborgunum af einhverjum af lánum sínum. Þar af hafa 44,7% átt erfitt með að greiða af yfirdráttarlánum og 34% af húsnæðislánum.

Alls greiða 64,8% svarenda af húsnæðislánum eða 420 manns. Þar af hafa 15,5%, eða 64 manns, endurfjármagnað húsnæðislán á síðustu 12 mánuðum. Ríflega helmingur þeirra, eða 35 manns fóru úr óverðtryggðu láni í verðtryggt.

Kannað var hvort fjárhagur hefði áhrif á lífsgæði og heilsu. 19,8% svarenda höfðu frestað eða hætt við að fara til tannlæknis af fjárhagsástæðum á árinu. 9,2% höfðu frestað eða hætt við að fara til læknis og 7,4% frestað eða hætt við að kaupa lyf af fjárhagsástæðum. Þá höfðu 18,3% minnkað eða hætt þátttöku sinni og/eða barnana sinna í heilsueflingu, s.s. líkamsrækt, sjúkraþjálfun, tómstundum eða sál-fræðiþjónustu af fjárhagsástæðum.

Spurt var hvort það hefði komið fyrir að svarendur hefðu átt í erfiðleikum með að ná endum saman á sl. 6 mánuðum. Alls sögðust 16,3% hafa alltaf eða oft átt í erfiðleikum með að ná endum saman, 10,1% svöruðu hvorki né og 73,6% svöruðu aldrei/sjaldan.

Alls búa 75,3% svarenda í eigin húsnæði, 17,9% í leiguhúsnæði og 6,6% í foreldrahúsum eða fríu húsnæði. Af þeim sem leigja telja 62,3% sig búa við húsnæðisöryggi, 19,8% hvorki né og 17,9% sögðust telja sig geta misst húsnæðið fyrirvaralítið.

Af þeim sem búa í eigin húsnæði sögðu 85% húsnæðiskostnað hafa hækkað, 10,9% sögðu hann hafa hvorki hækkað né lækkað og 4,1% sögðu hann hafa lækkað. Af þeim sem leigja sögðu 82,1% húsnæðiskostnað hafa hækkað, 17% sögðu hann hafa hvorki hækkað né lækkað og aðeins einn sagði hann hafa lækkað. Alls sögðust samtals 483 leigjendur og húsnæðiseigendur húsnæðiskostnað hafa hækkað á síðustu 12 mánuðum. Meðaltal hækkunar á húsnæðiskostnaði á mánuði hjá þeim sem eru í eigin húsnæði er 48.376 kr. og 31.470 kr. hjá þeim sem eru á leigumarkaði.

Áhugi á endurmenntun

Þau sem svöruðu fyrri spurningu um að vera á vinnumarkaði játandi voru spurð hvort þau teldu starf sitt eiga eftir að taka miklum eða litlum breytingum vegna tækniþróunar á næstu fimm árum. 43,3% svarenda telja starf sitt eiga eftir að taka miklum breytingum, 26,3% telja það eiga eftir að taka litlum breytingum og 30,4% svöruðu hvorki né.

Í framhaldi var spurt um þörf svarenda fyrir viðbótarmenntun eða aðra fræðslu til að styrkja sig í núverandi starfi. 40,1% hefur mikla þörf, 27% litla eða enga þörf og 32,9% hvorki né.

Einnig var spurt hvað kemur helst í veg fyrir að svarendur sæki sér sí- og endurmenntun, fræðslu eða þjálfun. Um fjölval var að ræða og því mátti nefna fleiri en eina ástæðu, hlutfallstölur eru reiknaðar eftir fjölda þeirra sem tóku afstöðu, sem voru 503. 50% svarenda sögðu tímaskort eða vinnuálag ástæðuna, 20% sögðu það of dýrt, 20% sjá ekki ávinning af því, 17.5% telja námskeið eða fræðslu sem er í boði ekki henta starfinu, 11,7% segja námskeið eða fræðslu ekki henta miðað við vinnutíma, 11,5% hafa ekki aðstöðu til þess á vinnustað/vinnutíma, 19,1% hefur ekki þörf fyrir menntun og 4,2% sjá ekki tilgang með því að sækja sér sí- eða endurmenntun, fræðslu eða þjálfun.

Áhrif af breytingum á gjaldskrá leikskólana

Á þjónustusvæði FVSA hafa verið gerðar gjaldskrárbreytingar í leikskólum einhverra sveitarfélaga. Með gjaldskrárbreytingunni lækkar kostnaður þeirra sem stytta vistunartíma barna sinna verulega, en aukin kostnaður fellur á þau sem nýta svokallaða skráningardaga og/eða fullan vistunartíma.

Af þeim sem svöruðu könnuninni svöruðu 68 já við því að vera með barn/börn á leikskóla. 88,7% þeirra sögðu já við því að gjaldskrárbreytingar hefðu verið gerðar á leikskólanum. Rétt tæplega helmingur, eða 46,3%, sögðust óánægð með gjaldskrárbreytinguna, 18,5% eru ánægð og 35,2% hvorki né.

Mest óánægja er meðal þeirra sem eru með dvalartíma í 8-8,5 klst., en 61,1% þeirra eru óánægð, 30,6% hvorki né og 8,3% eru ánægð. Af þeim sem eru með dvalartíma í 6,5-7,5 klst. eru 18,2% óánægð, 45,5% ánægð og 36,4% hvorki né. Af þeim sem eru með dvalartíma í 5,5-6 klst. eru 33,3% ánægð, 66,7% hvorki né en ekki mælanleg óánægja.

Í framhaldi var kannað hvort að kostnaður við leikskólagjöld hefði hækkað eða lækkað vegna gjaldskrárbreytinganna. 30,2% sögðu kostnað hafa hækkað verulega, 35,8% sögðu hann hafa hækkað lítillega, 5,7% sögðu hann hvorki hafa hækkað né lækkað, 18,9% sögðu hann hafa lækkað lítillega og 9,4% sögðu hann hafa lækkað verulega.

Ef horft er á niðurstöður um kostnað við leikskólagjöld sést að kostnaður hækkar mest hjá þeim sem eru með 650.00 kr. í heildarmánaðarlaun eða lægra, en 44% þeirra sem eru í því tekjuþrepi segja kostnað hafa hækkað verulega.

Einnig var spurt hvort gjaldskrárbreytingar hefðu haft áhrif á hver myndi sækja barnið/börnin á leikskólann. Í svörum kemur fram að 31% kvenna sækja börnin sín alltaf eða oftar, en aðeins 14% karlar sækja börnin sín alltaf eða oftar. Heilt yfir segjast 46% karla sækja börn eða barn á leikskóla á móti 63% kvenna.

Útdráttarverðlaun

Félagsfólk sem tók þátt í könnuninni fékk lukkunúmer. Gallup sá um að draga út númer þátttakenda af handahófi og fengu sex heppnir gjafabréf í útdráttarverðlaun. Búið er að hafa samband við alla vinningshafa, en númerin voru 2622, 3107, 3121, 3250, 2770 og 3314.

Við þökkum öllu því félagsfólki sem gaf sér tíma til þess að svara könnuninni.