Nýir kjarasamningar samþykktir

Niðurstöður í atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni um nýgerða kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda liggja nú fyrir. Atkvæðagreiðsla um samningana var rafræn og stóð yfir dagana 18.- 21. mars 2024.

Samningur við Samtök atvinnulífsins samþykktur

Rafrænni atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) / Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) við Samtök atvinnulífsins (SA) lauk á hádegi í dag og var hann samþykktur með 90,13% greiddra atkvæða.

Alls voru 2.127 á kjörskrá Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, þar af nýttu 375 atkvæðisrétt sinn og kjörsókn því 17,63%. Alls samþykktu 338 samninginn, eða 90,13% þeirra sem kusu, 30 höfnuðu samningnum eða 8% og 7 tóku ekki afstöðu, eða 1,87%. 

Samningur um kaup og kjör starfsmanna við afgreiðslu- og þjónustustörf á bensínafgreiðslustöðum, sem er hluti af aðalkjarasamningi LÍV/FVSA við SA, er þar með einnig samþykktur. 


Samningur við Félag atvinnurekenda einnig samþykktur 

Atkvæðagreiðslu um nýjan samning við Félag atvinnurekenda lauk einnig í dag og var sá samningur samþykktur með 93,75% greiddra atkvæða. Alls voru 55 félagsmenn FVSA á kjörkskrá um þennan samning, þar af nýttu 16 atkvæðisrétt sinn og kjörsókn því 29,09%. Alls samþykktu 15 samninginn, eða 93,75% þeirra sem kusu, einn hafnaði samningnum eða 6,25%.